Kate Chopin

Kate Chopin, eða Katherine O'Flaherty eins og hún hét fullu nafni, fæddist í Missouri-fylki í Bandaríkjunum 8. febrúar árið 1851.  Var hún af írskum og frönskum ættum en faðir hennar, Thomas, hafði flutt frá Galway á Írlandi og móðir hennar, Eliza Faris, var framakona innan franska kreólasamfélagsins í Missouri.  Fjölskyldan var vel efnum búin.

Árið 1855, þegar Kate var fjögurra ára, lést faðir hennar í járnbrautarslysi.  Var það henni mikið áfall, en í kjölfarið myndaði hún enn sterkari tengsl við móður sína og ömmu.  Þá byrjar hún fljótt að lesa mikið, en einkum þótti henni gaman að rómantískum sögum og ævintýrum alls konar.  Voru höfundarnir Walter Scott og Charles Dickens í miklu uppáhaldi hjá henni.

Þegar Kate var á tólfta ári varð hún fyrir öðru áfalli sem skók tilveru hennar, en þá létust amma hennar og hálfbróðir.  Hafði hann verið hermaður í her Suðurríkjanna en lent í fangabúðum Norðuríkjamanna og látist þar úr taugaveiki.  Upp úr því hætti hún hefðbundnu skólanámi og leitaði nú enn meira í þá veröld sem hún fann í sögum og bókum.    

Tveimur árum seinna settist hún aftur á skólabekk og lauk almennu gagnfræðanámi.  Á þeim árum byrjaði hún að halda reglulega dagbók og fór að stunda samkvæmislífið af nokkrum ákafa.  Gat hún sér orð fyrir hve orðheppin hún þótti.  Þá vaknaði mikill áhugi hjá henni á tónlist og tónlistarflutningi.  Ferðaðist hún m.a. til New Orleans, Louisiana þar sem hún kynntist sjálfstæðri söngkonu og leikkonu sem hafði mikil áhrif á hana.  Lýsir hún reynslu sinni af þeirri ferð í ,,Emancipation: A Life Fable”.  Þá fór hún á þessum tíma að verða gagnrýnin á kaþólsku kirkjuna, einkum varðandi kynjamál.  Fannst henni sem kirkjan stuðlaði að því að halda konum niðri.   Árið 1870 giftist Kate Oscar Chopin í St. Louis.  Tilheyrði hann franska kreólasamfélaginu í borginni.  Héldu þau í brúðkaupsferð til Þýskalands, Sviss og Frakklands, en sneru þó heim fyrr en áætlað hafði verið vegna fransk-prússneska stríðsins. 

Er heim var komið hófu þau hjónin búskap í New Orleans þar sem Oscar reyndi fyrir sér í viðskiptum með bómull.  Eignuðust þau sex börn, fimm syni og eina dóttur.  Þrátt fyrir annir og barneignir var Kate áfram mjög virk í samkvæmislífinu.  Fylgdist hún vel með öllum tískustraumum og var fljót að tileinka sér allar nýjungar.  Vakti sjálfstæði hennar töluverða eftirtekt, ekki síst þegar hún tók upp á því að ganga einsömul um borgina, sem þá þótti alls ekki tilhlýðilegt.  Var hún töluvert gagnrýnd fyrir þetta athæfi sitt, en lét það ekki á sig fá, en lét hins vegar í sér heyra um það sem henni þótti brotakennt í samfélaginu, allan þann tvískinnung sem þar var ríkjandi.  En þrátt fyrir sterkar skoðanir og sjálfstæða hugsun vildi hún aldrei samsama sig kvenréttingabaráttu eða ganga í lið með súffragettunum.  Misrétti og ójöfnuð var alls staðar að finna í samfélaginu og bitnaði ekki bara á konum. 

Árið 1879 varð Oscar nánast gjaldþrota og fjölskyldan flutti til Cloutierville í Louisiana þar sem þau tóku að sér að stýra nokkrum smáum bómullarbýlum, auk þess að reka nýlenduvöruverslun.  Voru þetta erfið ár og þau gerðu lítið annað en að skrimta.  Þrátt fyrir það voru þau virk í samfélagsmálum og  fjölskyldan stóð þétt saman.  Oscar lést svo úr hitasótt árið 1884 og Kate stóð nú ein uppi með börnin og 42.000 dollara skuld.  Í fyrstu ákvað hún að reyna að halda öllu í horfinu, en fljótlega varð henni ljóst að það gekk ekki.  Átti hún svo í skammvinnu ástarævintýri við giftan bónda. 

Móðir Kate hafði miklar áhyggjur af henni og sótti það fast að hún flytti aftur til St. Louis og það var úr á endanum.  Var móðir hennar vel stæð og í St. Louis þurfti hún ekki lengur að búa við fjárhagsskort og áhyggjurnar af því.  Þrátt fyrir það var Kate ekki alls kostar sátt við lífið og tilveruna og árið eftir, þegar móðir hennar lést, fékk hún taugaáfall.  Til að vinna sig út úr áfallinu ráðlagði læknir henni að fara að skrifa ef það mætti verða til þess að koma lagi á taugarnar.   Kate leist vel á þetta ráð og má segja að hún hafi þá uppgötvað rithöfundinn sem bjó innra með henni.     

Eins og með annað lagði hún sig alla fram í skrifunum og skrifaði jöfnum höndum smásögur og greinar, auk þess sem hún þýddi sögur eftir erlenda höfunda.  Var skrifum hennar vel tekið í fyrstu og fékk hún verkin sín birt í ýmsum tímaritum, m.a. Atlantic Monthly, Criterion, Harper's Young People, The Saint Louis Dispatch og Vogue.  Þótti hún lipur penni en var samt ekki tekin alvarlega í bókmenntaheiminum í St. Louis.      

Það var fyrst með útkomu annarrar skáldsögu hennar, The Awakening (1899), sem gagnrýnendur sáu ástæðu til að veita henni verulega athygli, en sú athygli var ekki af góðu sprottin.  Hlaut sagan hraklega útreið og það fyrst og fremst af mórölskum ástæðum, þ.e. viðfangsefninu og þeim skoðunum sem birtust í sögunni, en hú fjallar um ósátta eiginkonu í leit að fróun.  Létu þeir alveg vera að tala um hve vel sagan var skrifuð og meistaralega uppbyggingu hennar.  Var sagan ófáanleg í langan tíma, en í dag þykir hún sannkallað meistaraverk og mjög mikilvægt innlegg í sögu kvenna og þróun skáldsögunnar.

Kate tók gagnrýnina sem sagan hlaut mjög nærri sér og einbeitti sér eftir það einkum að ritun smásagna, sem margar hverjar eru hreint stórkostlegar.  Hélt hún áfram að skrifa alveg þar til hún lést þann 20. ágúst árið 1904, einungis 53 ára að aldri.  Hneig hún niður þar sem hún var stödd á heimssýningunni í St. Louis.